Upplifðu Ísland

Blog

Vestfirðir sem aldrei fyrr!

- Sjón er sögu ríkari

Nýstárleg 5 daga ferð um áhugaverða staði allt til enda vega: Snæfjallaströndin, Kaldalónið og Unaðsdalurinn, jafnt sem Djúpavík og Eyri við Ingólfsfjörð ásamt lauginni við Krossnes. Sögur og gamanmál í fyrirrúmi.

Verð kr. 129.900 með akstri, leiðsögn, gistingu og morgunverði.

Verð er per einstakling og miðast við 2 í herbergi.

Reykjavík – Vatnsnes – Malarhorn Drangsnesi

Brottför frá Reykjavík, ekið í gegnum Borgarnes, yfir Holtavörðuheiði og út Hrútafjörð og yfir Heggstaðanesið sem tekur okkur ofan í Miðfjörðinn og til Hvammstanga þar sem við skoðum okkur um og snæðum. Frá Hvammstanga leggjum við svo lengra út á Vatnsnesið við Húnaflóa.

Nú eru við komin á slóðir þeirra Agnesar og Friðriks. Við snæðum hádegisverð á Geitafelli þar sem boðið er m.a. upp á margrómaða sjávarrétti ferska úr Húnaflóa.

Á Vatnsnesi finnum við einnig hina sögufrægu Illugastaði, en þar hefur verið útbúin sérstök aðstaða til selaskoðunar. Á Tjörn á Vatnsnesi hvíla þau Agnes og Friðrik bein sín.

Frá Vatnsnesi eigum við að geta litið Strandir hinum megin Húnaflóa og rifjað upp einu sjóorrustu okkar sögu; Flóabardaga.Að Ströndum liggur nú leið okkar. Við höldum inn Hrútafjörðinn austanverðan og þaðan út hann aftur að vestanverðu. Við gerum stuttan stans á fámennasta þorpi landsins, Borðeyri. Þaðan höldum við áfram, yfir Stikuháls, ofan í Bitrufjörðinn og áfram í norðurátt og til Hólmavíkur. Á Hólmavík viðtjum við tófta þess bæjar þar sem fyrsti Hólmvíkingurinn fæddist árið 1887, Stefán frá Hvítadal.

Frá Hólmavík ökum við fyrir Steingrímsfjörð og út á Malarhorn á Drangsnesi þar sem verður okkar dvalarstaður næstu tvær nætur. Þar njótum við stórbrotins útsýnis, ekki síst hinnar fallegu Grímseyjar á Steingrímsfirði rétt utan við okkur. Við hlið hótelsins er ný og glæsileg sundlaug, en á Drangsnesi er einnig að finna hina frægu heitu potta í fjöruborðinu.

Malarhorn – Djúpavík – Gjögur – Drangsnes – Eyri við Ingólfsfjörð – Krossnes – Bjarkalundur

Lagt er upp frá Malarhorni í dagsferð Norður á Strandir, þar sem við ökum, um Bjarnarfjörð, Kaldbaksvík og Veiðileysu og í gegnum Djúpavík, komum við á Gjögri, þaðan í Árnes og yfir í Ingólfsfjörð þar sem vegurinn endar.

Á Eyri er einnig gömul síldarverksmiðja. Frá Ingólfsfirði höldum við yfir í Norðurfjörð þar sem við áum og njótum veitinga áður en haldið í Krossnes þar sem fólk getur látið þreytuna líða úr sér í Krossneslauginni þar sem vegurinn endar einnig. Eftir hressinguna í Krossnesi ökum við til baka og stoppum minjasafninu á bænum Kört þar sem finna má mikinn fróðleik um sögu Strandamanna.

Frá Kört höldum við áfram, nú höldum við til Djúpavíkur, skoðum við hina fornfrægu síldarverksmiðju þar sem flak M/S Suðurlands liggur enn við og allt hvílir þetta undir seiðandi niðs hins gullfallega foss Eiðrofa.

Að nýju liggur leið okkar að Malarhorni.

Malarhorn – Snæfjallaströnd – Kaldalón – Súðavík – Ísafjörður – Hnífsdalur – Bolungarvík

Enn leggjum við upp frá Malarhorni, nú yfir Steingrímsfjarðarheiði og niður í Ísafjarðardjúpið umlukt stórbrotnum fjöllum og sínum níu fjörðum. Þeir eru ófáir sem aldrei hafa komið á Snæfjallaströnd, en hana upplifum við í þessari ferð og rifjum upp sögu hennar. Við ökum Kaldalón þar sem finna má minnisvarðann um Sigvalda Kaldalóns, ökum yfir Mórillu, ána sem litar lónið, horfum til Drangajökuls og upplifum sumarið takast á við snjóalögin.

Við áum í félagsheimilinu Dalbæ þar sem við eigum þess kost að skoða sögusýningar og við vitjum kirkjunnar í fjöruborðinu, kirkjuna í Unaðsdal. Þá skoðum við safnið í Lyngholti áður en við ökum til baka.

Við ökum Ísafjörð, Mjóafjörð og Skötufjörð. Í Skötufirði fáum við okkur kaffi og nýbakaðar vöfflur í Litla bæ. Þaðan ökum við áfram; Hestfjörð, Seyðisfjörð og Álftafjörð áður en við rennum okkur inn í Skutulsfjörðinn þar sem Ísafjarðarkaupstaður verður heimsóttur.

Við gefum okkur tíma þar áður en haldið er í Hnífsdal. Við endum svo ferðalag okkar þennan dag í Bolungarvík þar sem við gistum í hinu rómaða Einarshúsi.

Ef veður leyfir, þá ökum við upp á Bolafjall og njótum ótrúlegs útsýnis yfir að Grænuhlíð, Jökulfjörðum, út á hafið og inn Djúpið.

Bolungarvík – Flateyri – Þingeyri – Bíldudalur – Tálknafjörður – Patreksfjörður – Rauðsdalur

Frá Bolungarvík ökum við áleiðis í suðurátt með Flateyri við Önundarfjörð sem fyrsta viðkomustað. Þar komum við í Gömlu bókabúðinni, elstu upprunalegu verslun Íslands og rekin hefur verið síðan 1914. Þaðan ökum við yfir á Þingeyri við Dýrafjörð.

Frá Þingeyri ökum við Hrafnseyrarheiði og gerum stutt stopp á Hrafnseyri þar sem við getum vottað minningu Jóns Sigurðssonar virðingu okkar. Þaðan er haldið inn Borgarfjörð, yfir Dynjandisheiði og stoppað við hinn stórbrotna foss Dynjanda.

Enn verður áfram haldið og nú ökum við Geirþjófsfjörð, Trostanfjörð og Fossfjörð. Ökum út Fossfjörð norðanverðan og komum þar við á Bíldudal þar sem fólki gefst kostur á að skoða poppminjasafn Jóns Kr. Ólafssonar. Frá Bíldudal sækjum við svo Tálknafjörð og Patreksfjörð heim áður en ekin er Barðaströndin og að náttstað okkar, Efri-Rauðsdal.

Efri-Rauðsdalur – Flókalundur – Brjánslækur – Gilsfjörður – Búðardalur – Reykjavík

Ekið verður frá Efri-Rauðsdal, inn Barðaströnd þar sem við sækjum heim Brjánslæk og Flókalund og njótum svo útsýnis á hinni fallegu leið sem ströndin býður upp á. Við ökum nýju Gilsfjarðarleiðina og þá “Heim í Búðardal” þar sem við minnumst Lonely Blue Boys, áður en haldið er í suður, nú ökum við Skógarströnd og komum við í Stykkishólmi áður en við tökum endasprettinn til Reykjavíkur.

Allar nánari upplýsingar í síma 570 7700 – eða á netfangið info@upplifduisland.is