Upplifðu Ísland!

Hringferðin okkar vinsæla

– með nýjum áherslum

4 daga hringferðin okkar frá sl. sumri gleymist engum er hennar fengu að njóta

Ekið í suður- og austurátt, helstu náttúruperlur heimsóttar; Seljalandsfoss, Reynisfjara, Jökulsárlón o.fl. o.fl. Snætt og gist að Hótel Smyrlabjörgum og ekið þaðan gegnum Austfirðina, áð að Fáskrúðsfirði og víðar áður en komið er að Eskifirði þar sem snætt verður og gist að Hótel Eskifirði áður en ekið verður yfir Möðrudalsöræfin, gegnum Mývatnssveit og að Akureyri þar sem gist verður að Hótel Kjarnalundi.

Á fjórða degi er ekið í gegnum Siglufjörð til Reykjavíkur með áhugaverðum áningarstöðum.

Verð kr. 89.900 með akstri, leiðsögn, gistingu og morgunverði.

Verð er per einstakling og miðast við 2 í herbergi.

Innifalið

Ekki innifalið

Taka með?

Nánari ferðalýsing

DAGUR 1 - BROTTFÖR

Reykjavík - Seljalandsfoss - Skógafoss - Reynisfjara - Vík - Eldhraun - Kirkjubæjarklaustur - Jökulsárlón - Smyrlabjörg

Við hefjum ferðina frá Hótel Hilton Nordica við Suðurlandsbraut og höldum út úr borginni í austurátt. Ökum sem leið liggur yfir Hellisheiði og austur Flóann, okkar fyrsti viðkomustaður er náttúrudjásnið Urriðafoss, vatnsmesti foss landsins. Frá þessum fallega fossi höldum við áfram austur, yfir Þjórsá, gegnum Hellu og gerum stutta áningu á Hvolsvelli.

Þaðan liggur svo leið okkar að hinum einstaka fossi Gljúfrabúa, friðlýstum náttúruvætti sem rennur á bakvið mikinn hamravegg, en hamarinn var áður talinn bústaður huldufólks. Við Gljúfrabúa er einnig Ömpuhellir, en í honum bjó einsetukonan Ampa. Frá Gljúfrabúa er nokkurra mínútu gangur að Seljalandsfossi sem frægur er orðinn um heim allan. Við njótum fegurðar hans áður en ekið er áfram með Eyjafjöllum, næsti áfangastaður er foss talinn af mörgum fegursti foss landsins, Skógafoss en hann fellur úr Skógaá. Skyldum við finna gullkistuna sem falin er á bakvið fossinn?

Frá Skógafossi höldum við austur, framhjá Pétursey, okkar næsti áfangastaður er Reynisfjaran, Reynisfjall og Reynisdrangar. Upplifun við Reynisfjöru er einstök, að sjá og finna krafta Atlantshafsins þar sem það tekst á við fjallið, fjöruna og Reynisdrangana eða tröllin eins og sumir sögðu.
Héðan er ferðinni svo haldið áfram, við komum að sjálfsögðu við í Vík í Mýrdal áður en við höldum út á sandana. Við förum yfir sögu jarðeldanna, stoppum við Foss á Síðu, horfum af útsýnispalli yfir Eldhraun, ökum í gegnum Kirkjubæjarklaustur og framhjá hinum milljón ára Lómagnúpi sem gnæfir yfir okkur áður en við leggjum út á Skeiðarársandinn, þennan víðsjárverða hluta Öræfasveitarinnar.
Eftir ferðalagið um sandana áum við í Freysnesi áður en áfram er haldið. Okkar næsti viðkomustaður er sjálft Jökulsárlónið sem sínum stórbrotna síbreytileika. Í uppgangi ferðamennskunnar varð til annar áfangastaður á sama stað; Demantaströndin. Hana skoðum við líka og ekki ólíklegt að selirnir skemmti okkur á meðan.

Frá Jökulsárlóni höldum við nú í náttstað. Smyrlabjörg í Suðursveit er löngu orðið þekkt fyrir skemmtilega staðsetningu og frábæran mat. Hér hvílum við okkur eftir gott ferðalag.

DAGUR 2 - DAGSKRÁ

Smyrlabjörg - Höfn - Stokksnes - Össurárdalur - Hvalsnes - Álftafjörður - Djúpivogur - Fáskrúðsfjörður - Eskifjörður

Annar dagur ferðarinnar hefst á Smyrlabjörgum, nú höldum við austur Suðursveitina yfir Hornafjarðarfljótin og heimsækjum Höfn í Hornafirði. Þar skoðum við Vatnajökulssafnið og gömlu verbúðina áður en við höldum áfram austur að Stokksnesi sem liggur við hið stórbrotna fjall Vestrahorn. Áfram er haldið, við ökum nýleg göng um Almannaskarð og nú liggur leiðin á Hvalsnes þar sem við njótum útsýnis. Frá Hvalsnesi liggur leið okkar um Álftafjörð áður en við ökum út næsta fjörðinn, Hamarsfjörð en útvið fjörðinn, á Búlandsnesi er okkar næsti viðkomustaður; Djúpivogur.

Við kynnum okkur sögu Djúpavogs og heimsækjum steinasafnið hans Jóns, fáum fyrirlestur og sýningu á einstökum steinum og listaverkum hans. Í þessari ferð er vinsælt að fá sér nýveiddan djúpsteiktan fisk á veitingahúsinu Við Voginn. Það kemur enginn á Djúpavog öðru vísi en að skoða Eggin í Gleðivík, listaverk Sigurðar Guðmundssonar. Það gerum við áður en við höldum áfram. Við ökum framhjá Búlandstindi og inn tilkomumikinn Berufjörðinn. Næst á eftir honum eru svo Breiðdalsvík og Stöðvarfjörður. Að þeim eknum erum við komin á okkar næsta viðkomustað sem er hinn fallegi Fáskrúðsfjörður. Þar skoðum við safnið um frönsku sjómennina með leiðsögn og fáum okkur kaffi.

Að lokinni þessari heimsókn ökum við inn í botn Fáskrúðsfjarðar, þar liggja nýleg göng yfir í Reyðarfjörð. Við heimsækjum Reyðarfjörð á leið okkar út fjörðinn og ökum framhjá sjálfum Hólmatindi sem gnæfir yfir okkar næsta náttstað Eskifirði. Þar dveljum við okkar næstu nótt á Hótel Eskifirði.Á Eskifirði er hinn víðfrægi Randulf’s sjávarréttastaður, við mælum sérstaklega með honum.

DAGUR 3 - DAGSKRÁ

Eskifjörður - Reyðarfjörður - Egilsstaðir - Rjúkandi - Möðrudalur - Dettifoss - Námaskarð - Víti - Mývatn - Goðafoss - Akureyri

Frá Eskifirði höldum við nú að nýju yfir í Reyðarfjörð þar sem við ökum inn fjörðinn og yfir Fagradal sem tekur okkur í Egilsstaði. Þar er okkar næsti viðkomustaður áður en við höldum áfram, nú er það sjálfur Jökuldalurinn sem við ökum með stoppi við fossinn Ytri-Rjúkanda sem liggur vel falinn frá veginum en svo sannarlega þess virði að skoða. Áfram höldum við inn dalinn og upp á öræfin. Sem við ökum, þá njótum við fegurðar og víðsýnis um fjöllin og Möðrudalsöræfin.

Við gerum okkur lítinn krók til að koma við í Möðrudal, þessu fornfræga hæsta býli á Íslandi þar sem við skoðum að sjálfsögðu staðinn og ekki síst kirkjuna og fáum okkur snæðing áður en við höldum áfram.

Fjöllin geyma ólíka fegurð. Frá Möðrudal höldum við svo áfram, ökum yfir Jökulsá á Fjöllum og þaðan að sjálfum Dettifossi, aflmesta fossi landsins. Við gefum okkur góðan tima hér áður en við höldum áfram. Okkar næsti áfangastaður er Víti við Kröfluvirkjun og þaðan förum við að Námaskarði með sinni einstöku upplifun.

Frá Námaskarði ökum við yfir á Mývatn, skoðum Dimmuborgir og njótum staðarins. Frá Mývatni ökum við nú vestur fyrir Mývatn, ökum Aðal- og Reykjadal, nú er sjálfur Goðafoss okkar næsti viðkomustaður þar sem við njótum fegurðar þessa einstaka staðar. Fossinn, sagan, hraunið. Allt er þetta einstakur rammi utan um þennan stórbrotna stað við Goðafoss. Frá Goðafossi ökum við Ljósavatnsskarð og Fnjóskadal áður en við komum ofan í kyrran Eyjafjörðinn og í höfuðstað Norðurlands, Akureyri.

Okkar náttstaður er Hótel Kjarnalundur í Kjarnaskógi, þar er tilvalið að láta líða úr sér í heitum pottum sem hótelið býður upp á.

DAGUR 4 - DAGSKRÁ - HEIMKOMA

Akureyri - Dalvík - Ólafsfjörður - Siglufjörður - Hofsós - Sauðárkrókur - Borgarnes – Reykjavík

Frá Akureyri höldum við nú út Eyjafjörð, okkar fyrsti viðkomustaður er hið forna prestsetur Laufás en þar hefur staðið kirkja allt frá fyrstu kristni. Á Laufási er minjasafn og gestastofa í gamla burstabænum sem að hluta hefur staðið allt frá 16. öld. Frá Laufási höldum við áfram, nú heimsækjum við Dalvík, þar er að finna kaffihús þeirra Bakkabræðra, en þeir voru einmitt úr Svarfaðardalnum. Við skoðum okkur um á Dalvík og ökum svo áfram út Eyjafjörðinn. Þegar ekið er út Eyjafjörð er ekki úr vegi að hafa augun hjá sér, aldrei að vita nema hvali beri fyrir augu. Þegar nær dregur Ólafsfjarðarmúlanum birtist Íslandshafið betur og á góðum degi er tilvalið að stoppa á útsýnisstað áður en haldið er inn Ólafsfjarðargöngin og virða fyrir sér útsýnið.

Við ökum yfir í Ólafsfjörð og skoðum okkur um, þaðan höldum við svo í gegnum Héðinsfjarðargöngin, þaðan um Héðinsfjörð og í gegnum önnur göng, Siglufjarðargöngin. Nú erum við komin í sjálfan Siglufjörð, þar er að finna mikla sögu, söfn og fallegar byggingar. Hér verður snæddur hádegisverður og slakað á.

Frá Siglufirði njótum við svo stórbrotins útsýnis er við ökum Fljótin og yfir á Höfðaströnd. Við ökum inn Höfðaströnd og komum við á Hofsósi þar sem fólki gefast tveir kostir: Að fara í glæsilegu sundlaugina við sjóinn, eða skoða Vesturfarasetrið. Hvort tveggja afar áhugaverðir kostir.
Frá Hofsósi höldum við áfram, ökum inn Skagafjörð og yfir Héraðsvötnin inn til Skagafjarðar.
Frá Skagafirði ökum við leiðina yfir Þverárfjall sem tekur okkur yfir á Skagaströnd. Blönduós er okkar næsti viðkomustaður. Þaðan er svo haldið áfram, við stönsum við Þrístapa og kynnum okkur sögu Agnesar og Friðriks, nú hefur þessum stað og sögu hans verið gerð betri skil og virðing.

Enn ökum við áfram, nú Vatnsdal, Víðidal, Línakradal, Miðfjörð og stefnum á Hrútafjörðinn. Við stönsum að sjálfsögðu í Staðarskála áður en lagt er í Holtavörðuheiði sem skilar okkur ofan í Norðurárdalinn. Þar njótum við fegurðar þar til ekið er í Borgarnes og þaðan til Reykjavíkur þar sem við endum ferðina á sama stað og við hófum hana, á Hilton Nordica.

Allar nánari upplýsingar í síma 570 7700 – eða á netfangið info@upplifduisland.is

Brottfarir kl. 09:00 alla fimmtudaga
frá 13. maí 2021

Brottfararstaður: Hotel Nordica
Sudurlandsbraut 2, 108 Reykjavik, Iceland